Tag Archives: ókeypis

POP UP fríbúð

Eru einhver með í að vera með svona POP UP fríbúð (einn dag, en gæti líka orðið reglulegur viðburður eins og til dæmis einusinni í mánuði ef val tækist til) Það er líka auðveldara að fá húsnæði að láni í einn dag og oft eru slíkir markaðir tengdir annari starfsemi, það er aðilinn sem lánar húsnæðið fær smá auglýsingu eða ef um til dæmis bar að ræða sem ekkert er notaður á daginn þá á hann möguleika á því að selja einn og einn kaffibolla.

Svona POP UP markaðir hafa fest sig í sessi undir því nafni svo POP UP frímarkaður/búð gæti verið eitthvað sem fólk kveikti auðveldlega á.

Svona fríbúðaform sem tilfallandi markaðir eru víða þekktir og er minni vinna við þá en að halda úti varanlegri fríbúð. Hann gæti samt orðið vísir að varanlegri fríbúð með tíð og tíma.

Einn gróði af því að semja við til dæmis kaffihús eða bar sem ekkert er notaður á daginn, sem oft er gert með svona POP UP markaði,er að þar eru til staðar borð svo ekki þyrfti að koma með neitt nema kassa af dóti

Svona markaður er auðvitað fyrst og fremst hentugur fyrir smávöru (svona Kolaports dót) en það er líka oft það sem erfiðast er að gefa því fólki finnst oft of mikil fyrirhöfn að keyra kanski bæinn á enda til að nálgast einn smáhlut.

Það þarf heldur ekki marga til að koma svona í kring, bara nokkur með nægilegan áhuga til að leita uppi stað sem væri til að hýsa markaðinn og svo að kynna/auglýsa atburðinn og til þess ætti Facebook sennilega að vera nóg.

Ég er mjög áhugasamur, eru fleiri til í að standa að svona frímarkaði með mér? Það þarf bara að vera einu sinni til að byrja með og svo meta áframhaldið eftir það, þetta væri líka í leiðinni mjög góð auglýsing fyrir íslenska horn StretBank og þær hugsjónir sem að baki StreetBank eru.

Common Cause – opið ókeypis námskeið 5. maí

Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði, í samvinnu við Public Interest Research Centre (PIRC) býður samtökum og einstaklingum á Common Cause námskeið. Námskeiðið er opið öllum en við leggjum sérstaka áherslu á að fá fulltrúa frá breiðum hópi samtaka sem eru að vinna að félagslegum og pólitískum umbótum hvert á sínu sviði, hvort sem það eru mannréttindi, umhverfismál, verkalýðsbarátta eða annað.

Á námskeiðinu er farið yfir ákveðin atriði í félagsfræði og sálfræði sem mikilvægt er að hafa til hliðsjónar þegar unnið er að breytingum á samfélagslegum eða pólitískum vettvangi. Mismunandi aðferðafræði, talsmáti og skipulag getur skipt miklu máli þegar kemur að því að ná fram og festa í sessi félagslegar umbætur.

Á námskeiðinu verður einnig farið yfir þau neikvæðu áhrif sem það hefur þegar við notum aðferðir sem spila á eigin hagsmuni, efnahagslegan ávinning eða félagslega stöðu fólks.

Síðast en ekki síst þá verður farið yfir það hvernig einstaklingar, hópar og samtök með mjög ólíkan bakgrunn og markmið geta tekist á við sömu grunn vandamálin sem standa í vegi fyrir betra samfélagi. Þegar við greinum markmið og gildi okkar og rýnum í þær aðferðir sem eru vænlegastar til árangurs þá kemur oft í ljós að við eigum mikla samleið með öðrum samtökum sem vinna að annarskonar markmiðum. Það er okkar von að geta með þessu námskeiði leitt saman ólík sjónarmið og skapað samvinnugrundvöll á milli mismunandi samtaka.

Hvenær: Mánudaginn 5. maí kl. 18:00 – 21:00

Hvar: Reykjavíkur Akademían, Hringbraut 121 (fjórða hæð)

Hver: Bec Sanderson & Jamie McQuilkin frá Public Interest Research Centre

Námskeiðið er öllum opið endurgjaldslaust en frjáls framlög eru vel þegin. Allir þáttakendur fá frítt eintak af af The Common Cause Handbook. Námskeiðið fer fram á ensku.

Áhugasamir geta skráð sig með tölvupósti á aldademocracy@gmail.com

Ókeypis matur úr ruslagámum matvöruverslana og veitingastaða þann 1. maí

Fimmtudaginn 1.maí klukkan 2, að Járnbraut 1 á Granda, ætlar hópurinn Ruslaurant að vekja athygli á öllum þeim góða mat sem fer til spillis daglega og bjóða gestum og gangandi uppá veitingar. Frýr matur verður fyrir alla á meðan birgðir endast.

Hópur sem kallar sig Ruslaurant hefur verið að veiða mat upp úr ruslagámum matvöruverslana og veitingastaða á höfuðborgarsvæðinu. Sjö skipa hópinn og eru þau öll nemendur í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands. Markmið þeirra er að vekja athygli á öllum þeim mat sem fer til spillis daglega.

„Árlega er einum þriðja af öllum mat hent. Á meðan svelta milljónir manna,“ segir Jónbjörn Finnbogason, einn af meðlimum hópsins og segir hann það staðreynd að þessum sóuðu matvælum mætti vafalaust verja betur.

Hópurinn byrjaði í síðustu viku að leita matar og segir Jónbjörn það hafa komið á óvart hversu mikið af góðum mat hafi fundist. „Oft var þetta bara útlitsgalli á umbúðunum og pakkningarnar voru í einhverjum tilfellum einungis klístraðar,“ segir hann og bætir við að margt af því sem fannst renni ekki út fyrr en eftir eitt til tvö ár.

Hópurinn hefur komið sér upp eldunaraðstöðu og verður eldað ofan í almenning þeim að kostnaðarlausu.

„Við ætlum að reyna að skapa skemmtilega stemmningu og munum við reiða fram matinn úr gámi,“ segir Jónbjörn og segir að allt það sem í boði verður sé gert úr gæðahráefni og segir fólk ekki þurfa að óttast að maturinn kynni að vera skemmdur.

Nánar um þennan viðburð hér á vísi.is