Ókeypis matur úr ruslagámum matvöruverslana og veitingastaða þann 1. maí

Fimmtudaginn 1.maí klukkan 2, að Járnbraut 1 á Granda, ætlar hópurinn Ruslaurant að vekja athygli á öllum þeim góða mat sem fer til spillis daglega og bjóða gestum og gangandi uppá veitingar. Frýr matur verður fyrir alla á meðan birgðir endast.

Hópur sem kallar sig Ruslaurant hefur verið að veiða mat upp úr ruslagámum matvöruverslana og veitingastaða á höfuðborgarsvæðinu. Sjö skipa hópinn og eru þau öll nemendur í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands. Markmið þeirra er að vekja athygli á öllum þeim mat sem fer til spillis daglega.

„Árlega er einum þriðja af öllum mat hent. Á meðan svelta milljónir manna,“ segir Jónbjörn Finnbogason, einn af meðlimum hópsins og segir hann það staðreynd að þessum sóuðu matvælum mætti vafalaust verja betur.

Hópurinn byrjaði í síðustu viku að leita matar og segir Jónbjörn það hafa komið á óvart hversu mikið af góðum mat hafi fundist. „Oft var þetta bara útlitsgalli á umbúðunum og pakkningarnar voru í einhverjum tilfellum einungis klístraðar,“ segir hann og bætir við að margt af því sem fannst renni ekki út fyrr en eftir eitt til tvö ár.

Hópurinn hefur komið sér upp eldunaraðstöðu og verður eldað ofan í almenning þeim að kostnaðarlausu.

„Við ætlum að reyna að skapa skemmtilega stemmningu og munum við reiða fram matinn úr gámi,“ segir Jónbjörn og segir að allt það sem í boði verður sé gert úr gæðahráefni og segir fólk ekki þurfa að óttast að maturinn kynni að vera skemmdur.

Nánar um þennan viðburð hér á vísi.is

One thought on “Ókeypis matur úr ruslagámum matvöruverslana og veitingastaða þann 1. maí

  1. greidasamlagid Post author

    Spurt var inn á StreetBank hvernig væri hægt að gefa þessum krökkum mat til að nota en ég veit það ekki. Þau voru í viðtali á vísi.is og aftur í Fréttablaðinu í morgun, en það kemur ekki fram neitt nema nafn eins viðmælandans.

    Ég býst samt við að skiptiborðið á Listaháskólanum viti hver þau eru og hægt að hringja í það og spurja um hvort það sé ekki með síma hjá einhverju þeirra. Ef ekki, þá biðja um að fá samband við Godd, sem er yfir grafískri hönnun, en þessir krakkar eru í námi þar, og hann veit örugglega hver þau eru og hvern ætti að tala við.

    Svo má sennilega líka bara mæta á staðinn með mat og ég tel öruggt að þau þiggi hann til viðbótar því sem þau eru með. Mat sem væri annars hent af því að hann telst ekki lengur gjaldgengur sem söluvara í verslunum eða veitingarstöðum, en er kannski ekkert að. Eins mat sem fólk sér fram á að muni skemmast hjá því sjálfu ef það til dæmis á of mikið af einhverju.

Leave a Reply