Tag Archives: Common Cause

Common Cause – opið ókeypis námskeið 5. maí

Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði, í samvinnu við Public Interest Research Centre (PIRC) býður samtökum og einstaklingum á Common Cause námskeið. Námskeiðið er opið öllum en við leggjum sérstaka áherslu á að fá fulltrúa frá breiðum hópi samtaka sem eru að vinna að félagslegum og pólitískum umbótum hvert á sínu sviði, hvort sem það eru mannréttindi, umhverfismál, verkalýðsbarátta eða annað.

Á námskeiðinu er farið yfir ákveðin atriði í félagsfræði og sálfræði sem mikilvægt er að hafa til hliðsjónar þegar unnið er að breytingum á samfélagslegum eða pólitískum vettvangi. Mismunandi aðferðafræði, talsmáti og skipulag getur skipt miklu máli þegar kemur að því að ná fram og festa í sessi félagslegar umbætur.

Á námskeiðinu verður einnig farið yfir þau neikvæðu áhrif sem það hefur þegar við notum aðferðir sem spila á eigin hagsmuni, efnahagslegan ávinning eða félagslega stöðu fólks.

Síðast en ekki síst þá verður farið yfir það hvernig einstaklingar, hópar og samtök með mjög ólíkan bakgrunn og markmið geta tekist á við sömu grunn vandamálin sem standa í vegi fyrir betra samfélagi. Þegar við greinum markmið og gildi okkar og rýnum í þær aðferðir sem eru vænlegastar til árangurs þá kemur oft í ljós að við eigum mikla samleið með öðrum samtökum sem vinna að annarskonar markmiðum. Það er okkar von að geta með þessu námskeiði leitt saman ólík sjónarmið og skapað samvinnugrundvöll á milli mismunandi samtaka.

Hvenær: Mánudaginn 5. maí kl. 18:00 – 21:00

Hvar: Reykjavíkur Akademían, Hringbraut 121 (fjórða hæð)

Hver: Bec Sanderson & Jamie McQuilkin frá Public Interest Research Centre

Námskeiðið er öllum opið endurgjaldslaust en frjáls framlög eru vel þegin. Allir þáttakendur fá frítt eintak af af The Common Cause Handbook. Námskeiðið fer fram á ensku.

Áhugasamir geta skráð sig með tölvupósti á aldademocracy@gmail.com