Category Archives: Ýmislegt ókeypis

Hér eru tíundaðir ýmsir atburðir, námskeið og annað sem ekki er endilega tengt StreetBank en vert er að benda á af því að það er ókeypis.

Eru einhver með í að koma upp ókeypis lítlu bókasafni (fríbúð) á Laugarveginum/göngugötu í sumar?

Við höfum undanfarin sumur sinnt ýmsu sem fólk hefur verið að gera á göngugötunni á Laugaveginum fyrir framan búðina okkar að Laugavegi 20, eins og að sjá um krítartöflu fyrir krakka, sem við sáum um að hýsa, þrífa og settum hana út á morgnanna og tókum inn á kvöldin svo hún yrði ekki skemmd.

Núna langar okkur að reyna að fá fólk með okkur í að setja upp lítið bókasafn/fríbúð í kassa við bekk hér fyrir framan búðina. Bókakassa sem fólk getur annaðhvort tekið bók sem þeim langar að lesa eða komið og gefið bækur, eða þá sest á bekkinn og gluggað í eða lesið í einhverri bókinni.

Ég er ekki mikill smiður og óska því eftir einhverjum sem hefði áhuga á að smíða bókakassann sjálfan en ég skal sinna honum. Hann má ekki vera of stór svo auðvelt sé að bera hann inn eftir daginn og á einhverskonar fæti svo kassinn væri í lestrar hæð (hæð við bekkinn).

Fyrirmyndin er The little free library sem eru með svona bókasafnskassa út um allan heim og þar á meðal í Reykjavík, en hér er hann er staðsettur í Hljómskálagarðinum við styttuna af Bertel Thorvaldsen.

Hér er tengill á The little free library vefinn en þar má sjá alskonar skemmtilegar útfærslur á hugmyndinni.

Eru einhver með í þetta verkefni? Það þarf ekkert að vera einhver einn/ein sem smíðaði kassann, fólk getur hæglega tekið sig saman um það. Og eins að leggja til bækur í kassann, það þarf að fylla hann helst til að byrja með og eiga svo alltaf einhverjar bækur á lager hér inni í búð ef hann er að tæmast of fljótt, en oftast er ágætis jafnvægi á svona verkefnum, það er fólk kemur með álíka mikið og það tekur.

Göngugatan verður opnuð á 17. júní og langar mig til að bóksafnið/kassinn verði tilbúin fyrir þann tíma, en hann mætti alveg vera tilbúinn fyrr líka.

Ókeypis námskeið og leiðbeiningar í skrifum á wikipedia fimmtudaginn 8. maí

Ókeypis námskeið og leiðbeiningar fimmtudagin 8. maí, fyrir öll þau sem áhuga hafa á að taka þátt í wikipedia, hefjast nú aftur eftir páska frí. Athugið breyttan tíma, í stað 20-22 á fimmtudagskvöldum hafa þau verið færð til 17-19 í tölvuveri Þjóðarbókhlöðunnar á 3. hæð.

Í vetur hafa verið svona námskeið vikulega og kemur í ljós hvort þau verða það áfram. Mun láta vita hér þegar það verður ljóst.

Common Cause – opið ókeypis námskeið 5. maí

Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði, í samvinnu við Public Interest Research Centre (PIRC) býður samtökum og einstaklingum á Common Cause námskeið. Námskeiðið er opið öllum en við leggjum sérstaka áherslu á að fá fulltrúa frá breiðum hópi samtaka sem eru að vinna að félagslegum og pólitískum umbótum hvert á sínu sviði, hvort sem það eru mannréttindi, umhverfismál, verkalýðsbarátta eða annað.

Á námskeiðinu er farið yfir ákveðin atriði í félagsfræði og sálfræði sem mikilvægt er að hafa til hliðsjónar þegar unnið er að breytingum á samfélagslegum eða pólitískum vettvangi. Mismunandi aðferðafræði, talsmáti og skipulag getur skipt miklu máli þegar kemur að því að ná fram og festa í sessi félagslegar umbætur.

Á námskeiðinu verður einnig farið yfir þau neikvæðu áhrif sem það hefur þegar við notum aðferðir sem spila á eigin hagsmuni, efnahagslegan ávinning eða félagslega stöðu fólks.

Síðast en ekki síst þá verður farið yfir það hvernig einstaklingar, hópar og samtök með mjög ólíkan bakgrunn og markmið geta tekist á við sömu grunn vandamálin sem standa í vegi fyrir betra samfélagi. Þegar við greinum markmið og gildi okkar og rýnum í þær aðferðir sem eru vænlegastar til árangurs þá kemur oft í ljós að við eigum mikla samleið með öðrum samtökum sem vinna að annarskonar markmiðum. Það er okkar von að geta með þessu námskeiði leitt saman ólík sjónarmið og skapað samvinnugrundvöll á milli mismunandi samtaka.

Hvenær: Mánudaginn 5. maí kl. 18:00 – 21:00

Hvar: Reykjavíkur Akademían, Hringbraut 121 (fjórða hæð)

Hver: Bec Sanderson & Jamie McQuilkin frá Public Interest Research Centre

Námskeiðið er öllum opið endurgjaldslaust en frjáls framlög eru vel þegin. Allir þáttakendur fá frítt eintak af af The Common Cause Handbook. Námskeiðið fer fram á ensku.

Áhugasamir geta skráð sig með tölvupósti á aldademocracy@gmail.com

Ókeypis matur úr ruslagámum matvöruverslana og veitingastaða þann 1. maí

Fimmtudaginn 1.maí klukkan 2, að Járnbraut 1 á Granda, ætlar hópurinn Ruslaurant að vekja athygli á öllum þeim góða mat sem fer til spillis daglega og bjóða gestum og gangandi uppá veitingar. Frýr matur verður fyrir alla á meðan birgðir endast.

Hópur sem kallar sig Ruslaurant hefur verið að veiða mat upp úr ruslagámum matvöruverslana og veitingastaða á höfuðborgarsvæðinu. Sjö skipa hópinn og eru þau öll nemendur í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands. Markmið þeirra er að vekja athygli á öllum þeim mat sem fer til spillis daglega.

„Árlega er einum þriðja af öllum mat hent. Á meðan svelta milljónir manna,“ segir Jónbjörn Finnbogason, einn af meðlimum hópsins og segir hann það staðreynd að þessum sóuðu matvælum mætti vafalaust verja betur.

Hópurinn byrjaði í síðustu viku að leita matar og segir Jónbjörn það hafa komið á óvart hversu mikið af góðum mat hafi fundist. „Oft var þetta bara útlitsgalli á umbúðunum og pakkningarnar voru í einhverjum tilfellum einungis klístraðar,“ segir hann og bætir við að margt af því sem fannst renni ekki út fyrr en eftir eitt til tvö ár.

Hópurinn hefur komið sér upp eldunaraðstöðu og verður eldað ofan í almenning þeim að kostnaðarlausu.

„Við ætlum að reyna að skapa skemmtilega stemmningu og munum við reiða fram matinn úr gámi,“ segir Jónbjörn og segir að allt það sem í boði verður sé gert úr gæðahráefni og segir fólk ekki þurfa að óttast að maturinn kynni að vera skemmdur.

Nánar um þennan viðburð hér á vísi.is

Ókeypis myndasögudagurinn er 3. maí

Fyrir þau ykkar sem hafa gaman af myndasögum er vert að benda á ókeypis myndasögudaginn þann 3. maí, en þá verða gefins myndasögur í myndasöguversluninni Nexus, myndasögublöð sem sérstaklega eru búin til fyrir þennan dag en dagurinn er alþjóðlegur.

Þetta er þrettánda árið sem haldið er upp á daginn. Nexus og Ókei-bækur gefa blaðið ÓkeiPiss fjórða árið í röð. Viðburðurinn byrjar kl. 12.00 á laugardaginn og blöðin verða gefin á meðan birgðir endast. Það ætti enginn að fara tómhentur heim en reynslan sýnir þó að það er gott að mæta tímanlega. Það myndast að öllu jöfnu ógnarlöng röð og mikil stemming ríkir yfir daginn. Nexus hvetur jafnframt búningaáhugafólk til að koma í búningum og alla til að taka með góða skapið :)

 

Ókeypis lítið bókasafn í Hljómskálagarðinum

Little_free_litraryLittle Free Library Reykjavík var sett upp í Hljómskálagarðinum við styttuna af Bertel Thorvaldsen 14 júní 2013.

Það er öllum frjálst að ná sér í bækur og/eða koma með bækur til að gefa bókasafninu. Þetta er bara lítill kassi, en heldur vel veðri og vindum. Bókasafns kassinn var að hluta fjármagnaður í gegnum Karolinfund og styrktur af ýmsum bókaforlögum

Little Free Library er alþjóðlegt verkefni og má nálgast nánari upplýsingar um það hér á vef þeirra